Sundlaugin Mühleye er staðsett í kantónunni Wallis í Sviss. Hún liggur í dalbotni bæjarins Visp og er umkringd stórbrotnum fjallahring Alpanna. Visp er um tíu þúsund manna bær sem liggur á svokölluðum fjalla-krossgötum, en frá Visp er hægt að fara í flestar helstu áttirnar: til Zermatt, Saas Fee, Aletsch svæðisins, yfir til Ítaliu o.s.frv. Þetta er draumasvæði fyrir útivistarfólk, óteljandi gönguleiðir og hjólastígar að ógleymdum öllum skíðasvæðunum.
Sundlaugin er einungis opin yfir sumartímann, eða frá lok apríl til lok september. Á góðum sumardögum koma yfir 1000 gestir til að synda, kæla sig og liggja í sólinni. Venjulegir sunddagar telja á bilinu 400 – 600 gesti. Fólkið í Wallis er ekki þekkt fyrir að vera mikið sundfólk, en er þeim mun þekktara fyrir að stunda fjallgöngur og frekar þekkt sem fjallageitur. Þeirra sundmenningin er því alls ólík þeirri íslensku. Fjarkasundið var sett á laggirnar með það að markmiði að hvetja fjallageiturnar að stinga sér til sunds og það að geta synt upp á uppáhaldsfjallið sitt var hugsað sem aðalgulrótin. Sundlaugin er umkringd stórri grasflöt með margskonar trjám og runnum. Þetta græna svæði er ekki síður freistandi fyrir alla þá sem njóta þess að leggjast út í Guðs græna náttúruna og sleikja sólina.
Sundlaugin sjálf er 50 metrar að lengd með sex brautum. Hún býður upp á ótakmarkaða sundskemmtun með eins metra stökkbretti og þriggja metra stökkpalli. Þá má ekki gleyma 45 metra 360° rennibrautinni sem tryggir dásamlega dýfu í vatnið. Sundlaugin er með 20 metra grynnri enda sem nýtist vel fyrir byrjendur og við sundkennslu. Heitari sundlaug er einnig í boði fyrir minnstu gestina.
Þess má geta að haustið 2024 verður hafist handa við að byggja nýja rennibraut við laugina, þriggja brauta „Racer Slide“ og einnig verður barnalaugin endurnýjuð. Heitavatnsleiðslan sem liggur í laugina flytur hreint vatn sem ferðast fyrst í gegnum einn hluta nærliggjandi verksmiðju, Lonza, þar sem vatnið hitnar upp í ca. 45°C. Þegar vatnið endar svo í sundlauginni er það um 40°C. Leitast er við að halda vatninu í 24°C í stóru lauginni en um 33°C í barnalauginni. Þó er það svo að rúmmál þessa heita vatns er ekki það mikið að það nái að halda lauginni nægilega heitri þegar lofthitinn fellur. Þannig er vatnið stundum ekki nema um 20°C heitt í upphafi sumars þegar næturnar eru enn svalar.
Lonza verksmiðjan er stærsti atvinnurekandinn á svæðinu, staðsett í Visp og er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á virkum lyfjaefnum, bæði í efna- og líftæknigeiranum.
Eitt af sérkennum sundlaugarinnar eru sundbrautirnar en þær eru merktar á botni laugarinnar með nöfnum og hæð helstu fjalla í Wallis. Þannig er sundlaugin í Visp sannkölluð fjallasundlaug.
Við laugina er nýr strandblakvöllur sem er mikið notaður af gestum yfir sumarmánuðina.
Sundskóli er starfandi í sundlauginni og einnig er boðið upp á vatnsleikfimi og „Float fit“. Á grasinu er líka boðið upp á hreyfitíma og undir einu trénu er að finna tjald þar sem boðið er upp á svæðanudd.
Reglulegir tónleikar og uppákomur fara einnig fram á grasflötinni hjá sundlauginni, þar á meðal er svissneskur þjóðsagnaþáttur sem „Útvarp Berner Oberland“ mun taka upp laugardaginn 24. ágúst. Að sjálfsögðu geta áhugasamir hlustað á þáttinn í gegnum internetið.
Við sundlaugina er veitingastaður og á matseðlinum er mikið úrval af ljúffengum réttum og hressandi drykkjum, einnig er söluturn þar sem seldur er ís og boðið upp á allskonar úrval af snarli og drykkjum.
Samofið þessu öllu saman er svo tjaldsvæði við hliðina á sundlauginni með stæði fyrir um 200 farartæki/tjöld. Gestirnir eru flestir frá Sviss, Hollandi og Þýskalandi. Á tjaldsvæðinu er einnig boðið upp á gistingu í litlum, einföldum kofum, sem eru mikið leigðir af hjóla- og göngufólki sem er að kanna svæðið.
Ef þið hafið áhuga að fylgjast meira með okkur og eruð fær í þýsku þá erum við með vikulega hlaðvarpsþætti þar sem púlsinn er tekinn á tjaldsvæðagestum eða öðru sem efst er á baugi hverju sinni. Auk þess gefum við út mánaðarlegt fréttabréf þar sem hægt er að fylgjast með því sem framundan er.
Sundfólkið í Visp býður íslenska sundfólkið úr sundlauginni á Akureyri hjartanlega velkomið í Fjallasundið og hlakkar til að sýna Íslendingum fjallaheiminn sinn. Við erum ekki síður spennt að fá að kynnast dularfullum eldfjöllum Íslands, jöklum, holtum og hólum.
Íslenska bað- og sundmenningin er líka nákvæmlega það sem þarf til að krydda Fjallasundið í Wallis og gera það enn áhugaverðara fyrir sem flesta.