Sundlaug Akureyrar er stærsta og mest sótta sundlaugin á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins, en hún er staðsett í höfuðstað norðursins, Akureyri. Á Akureyri búa um 20 þúsund manns, en bærinn er vinsæll áfangastaður hjá bæði innlendum og erlendum ferðamönnum allan ársins hring. Heimsókn í Sundlaug Akureyrar þykir algjörlega ómissandi hluti af heimsókn til Akureyrar.
Sundlaug Akureyrar er vatnaparadís á heimsmælikvarða fyrir alla fjölskylduna. Á svæðinu er að finna tvær 25m útisundlaugar, fjóra heita potta, nuddpott, vaðlaug, eimbað, kalt ker, sólbaðsaðstöðu, bæði inni- og útiklefa og vatnsrennibrautir. Sundlaugarnar eru við 27°C og 30°C en heitu pottarnir eru á bilinu 36 – 42°C.
Rennibrautirnar eru þrjár, þar á meðal er lengsta vatnsrennibraut á Íslandi, „Flækjan“ og „Trektin“ sem er eina vatnsrennibraut sinnar tegundar á Íslandi. „Fossinn“, sú þriðja, er fyrir þá sem ekki þora í stóru brautirnar, en allar eru þær mjög vinsælar hjá börnum á öllum aldri.
Sundlaug hefur verið á þeim stað sem Sundlaug Akureyrar stendur frá því um 1897 þegar lækur sem rennur um Grófargil var fyrst stíflaður með torfhleðslu til að mynda „sundpoll.“ Heitu vatni var fyrst veitt til laugarinnar árið 1933. Sundlaug Akureyrar nýtur mikilla vinsælda hjá heimamönnum og ferðamönnum, en laugin er aðeins lokuð fjóra daga á ári. Það má því segja að sundiðkun sé gamalgróin og mikið stunduð hefð á Akureyri.
Sundlaug Akureyrar býður sundþyrsta Svisslendinga innilega velkomna í fjallasund á hin íslensku fjöll. Það er virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu verkefni og við hlökkum til að taka þátt í Fjallasundinu.