Eyjafjallajökull er eitt af höfuðfjöllum Suðurlands. Þessi íturvaxna og gamla eldkeila rís nánast beint upp af fjörum og ökrum Eyjafjalla með margslungnum dölum, kvosum, giljum og gljúfrum. Jökullinn á henni er um 78 ferkílómetrar og víða 20°-35° brattur. Jaðrarnir eru sprungnir, sprungur eru kringum smátinda sem raðast nálægt 2 km breiðum toppgíg eldfjallsins og nokkrir afmarkaðir skriðjöklar teygja sprungusvæðið langt upp í jökulhlíðarnar. Hvergi er þar leið án sprungusvæða. Stærstu skriðjöklarnir tveir falla norður af – Steinholtsjökull og Gígjökull, 1.000-1.200 metra fall.
Fjallið sýnist vera hlaðið upp ofan á öðru og rofnu eldfjalli og er meginhluti þess 700.000 ára eða yngri. Síðast urðu eldsumbrot í því árin 1821-1823 og svo árið 2010, sem olli lengsta flugbanni í evrópskri flugsögu eins og margir muna eftir. Eyjafjöll og jökullinn draga nafn af Vestmannaeyjum, um 11 km undan landi.
Allmargar leiðir hafa verið farnar á Eyjafjallajökul og þangað hafa bílar einnig komið. Auðveldast er að ganga á jökulinn af Fimmvörðuhálsi (2-3 klst.) rétt eins og land liggur en helst aðeins í góðu eða sæmilegu veðri. Þeirri leið er ekki lýst hér, heldur áhugaverðri „alvöru“ fjallgönguleið úr norðvestri.
Aðkoman er af Þórsmerkurleið, skammt vestan og neðan við áberandi strýtu í brún stallsins undir jöklinum. Hún heitir Grýtutindur og er gott tjaldsvæði í lynghvammi við veginn. Leiðin liggur upp vestari jaðar aurkeilu (og upp með breiðu, grunnu gili), áfram upp móbergsrima uns brúninni er náð. Jökuljaðarinn er rétt þar fyrir ofan (sprungulaus) og ofan við hann sést röð af gjallhólum, svokölluð Sker. Gengið er neðan við þau og röðinni fylgt til enda skáhallt upp jökulinn. Bratti er ekki mikill. Við síðasta skerið er beygt til hægri (í suðaustlæga stefnu) og nú eykst brattinn. Framundan sést reisulegur klettur við sjóndeildarhring (Goða- og Guðnasteinn, sýnilegur úr Fljótshlíð, ekki er vitað um nafngiftina). Rétt er að sveigja í stefnu vestan við nibbuna (hægra megin). Sprungusvæði eru nú augljós. Þessi leið er oft kölluð Skerjaleið og best er að fara hana líka niður.
Sumir göngumenn fara upp á Goðastein (1.580 m) norðaustan megin og láta það duga. Á Hámund (1.651 m) er haldið vel neðan við Goðastein, skáhallt upp jökulbrekkur á gígbarminn sem umlykur upptök Gígjökuls í hálfhring. Eftir um 2 km viðbótargöngu eftir honum (sprungur!) er vinalegur hnúskur á miðjum gígbarminum kominn kirfilega undir fætur fjallamannsins. Hámundur er fallinn!
Bratt er suður af niður að bæjarfjöllum Eyfellinga. Vestmannaeyjar svamla í hafi og ef ekkert stöðvar för er Suðurskautslandið á hjara veraldar beint í suðri! Í norðri sér rakleitt niður efri hluta Gígjökuls og yfir til Tindfjalla og Heklu, auk Torfajökulssvæðisins. Í austri er Mýrdalsjökull með Kötlu fólgna í sér en í reynd sér yfir „hálft landið og miðin“ eins og sagt er. Fyrstur manna til að ganga á Eyjafjallajökul var Sveinn Pálsson læknir, 1794. Hann fór þó ekki alla leið á Hámund.