Hekla

Besta útsýnisfjall landsins og frægasta eldfjallið!

Die Hekla erreicht 1'491 m ü. M. Foto von Ágúst Guðmundsson.

Kanski er Hekla frægasta fjall Íslands. Hún er einna virkust allra megineldstöðva landsins og sú framleiðnasta. Í fjallinu og við það hefur gosið sem hér segir á tuttugstu öld: 1913, 1847, 1970, 1980-1981 og 1991. Gosið 1913 var við Lambafit og Mundafell. Fjallið stendur fallega og einstakt yfir suðurlandinu og hæðin þykir mikil á íslenskan mælikvarða, tæpir 1.500 metrar, breytileg vegna gosvirkni og jarðskorpuhreyfinga. Þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu fyrstir á fjallið árið 1750 svo vitað sé en almenningur var svo hræddur við þetta hlið helvítis að þeim var ráðlagt frá því að klífa fjallið og fylgdarmaður þeirra lagðist afvelta af magaverkjum og hræðslu.

Nú til dags brosa menn að Heklugöngu en vissulega bera þeir virðingu fyrir fjallinu. Ágætur sumarfær vegarslóði liggur af Dómadalsleið inn í Skjólkvíar meðfram hrauninu frá 1970. Skammt frá gjallgígnum Rauðuskál mynda troðningar gönguleiðina skáhallt upp gjallbornar brekkur. Brattur jeppaslóði er þar líka og margir aka hann upp á hrygginn milli Rauðkembinga og Heklufjalls til að hefja gönguna þar. Á gönguleiðinni sést glöggt að fjallið er smíðað af jarðeldinum úr gjósku og hraunlögum og ná sum þeirra mjög langt frá fjallinu. Það sjálft er hrygglaga og eru margir gígar á því endilöngu sem og í öllu eldstöðvarkerfinu í stefnu NA-SV frá fjallinu. Fannir og smájökull eru utan í fjallinu en víða uppi á hámöninni eru snjólausir rimar og gíghlutar. Efsti hlutinn er barmur Toppgígs sem aðallega myndaðist 1947. Þangað liggur leiðin í suðvestur, víða á greinilegum stíg, yfir gjall, brotgjarnt hraun, meðfram smáum og stórum gígum, upp og niður brekkur og yfir fannir, sem minnka hratt yfir sumarið, uns komið er á toppgíginn. Útsýnið er frábært – allt Fjallabak til Vatnajökuls og norður og vestur um öll ísalönd. Og fjallamaðurinn undrast að hann skuli, eftir fremur létta göngu, horfa ofan á öll fjöll í grenndinni. Talið er að heiti fjallsins sé dregið af orðinu hekla sem merkir ljóslett herðasjal. Ef rétt er má fullyrða að nafnið hæfir vel, hvort sem það á við snjóinn á kolli fjallsins eða skýjabakkana sem svo oft skreyta fjallið.

Oft er spurt hvort menn geti átt á hættu að lenda í þeirri skelfilegu og líklega einstæðu reynslu að vera á Heklu við upphaf goss. Svo getur farið því fyrirvari Heklugosa er afar stuttur (1-2 klst.) og goshlé hafa verið um 10 ár. Þetta verða menn að hafa í huga því að hætta á að ekki takist að komast nógu langt burt er umtalsverð.