Eiríksjökull er geysistór, jökulkrýndur móbergsstapi. Hann rís hátt upp af innsveitum Borgarfjarðar og ber hvelfdan snjóhjálm yfir Arnarvatnsheiði og Hallmundarhraun (runnið á 9. öld). Að baki jöklinum eru jökulbreiður Langjökuls (1.000 km2) en á milli jöklanna er Flosaskarð.
Nafn sitt dregur Eiríksjökull af útlegumanni sem á að hafa hafst við í hellum Hallmundarhrauns með félögum sínum. Er lagt var til atlögu gegn útilegumönnunum komst einn þeirra, Eiríkur að nafni, undan þótt einfættur væri en fót hafði hann misst í bardaganum við byggðamenn. Hann kleif stóran móbergsdrang, sem síðan heitir Eiríksgnípa og rís í vesturhlíð fjallsins, og náðist ekki. Eldra nafn jökulsins er ef til vill Baldjökull eða Balljökull (vegna kúptar lögunar jökulhvelsins).
Jökulhetta Eiríksjökuls er rúmlega 20 ferkílómetrar að flatarmáli og falla þrír nafnkenndir skriðjöklar ofan hlíðarnar sem eru skriðrunnar og víðast hvar girtar háum móbergshömrum með nokkrum bröttum vatnsrásum. Stærsti jökullinn fellur til norðurs og er hann brattur falljökull. Heitir hann Klofajökull eða Stóri-jökull. Vestan hans eru Brækur og Þorvaldsjökull og Ögmundarjökull austan við hann.
Fjallið undir jökulhettunni hefur líklega orðið til í einu eða fleiri gosum undir þykkum jökli síðla á ísöld. Gosmyndunin náði að lokum upp úr jöklinum og rann þá hraun svo að nokkuð víst er að dyngjukollur leynist undir jöklinum. Dyngjan er alveg hulin jökulís eða jökulruðningi en ólivínríkt basalthraun berst undan ísnum.
Gönguleiðin á fjallið er suðvestanmegin í því, alllangt norðvestan við mynni Flosaskarðs, gegnt Hafrafelli. Þangað liggur krókóttur, úfinn bílslóði yfir Hallmundarhraun, af veginum inn á Arnarvatnsheiði. Að hluta er hann aðeins fær breyttum jeppum. Farið er frá Torfabæli (ágætt tjaldsvæði) að greinilegum, ávölum hrygg sem blasir við í austri. Djúpt gil með ársprænu er haft á vinstri hönd og hryggnum fylgt alla leið upp á brún stapans (varða!). Leiðin er brött og er varsamur grjótmulningur sums staðar ofan á móbergsklöpp. Við taka svo lágar jökulöldur og aur- og krapableytur (að sumarlagi). Stefnt er þaðan á hábunguna í norðaustri, eftir hallalitlum og sprungulausum jöklinum.
Útsýni er gott yfir nær allan vesturhelming landsins en jökulbreiðan skyggir á næsta nágrenni og svo Langsjökull á stóran hluta austurhelmingsins.
Stundum nota menn skíði á jöklinum. Rangt er að freista niðurgöngu aðra leið en upp var farin og fari menn of langt til norðurs taka við varasöm sprungusvæði skriðjöklanna.