Kirkjufell er eitt þeirra fjalla sem mjög margir íslendingar þekkja af afspurn eða af myndum og margir hafa auðvitað séð það sem baksvið og útvörð Grundarfjarðar. Furðumargir hafa komið þar upp miðað við hve fjallið er bratt og þar eiga væntanlega fleiri Grundfirðingar hlut að máli en aðrir. Flestum hrýs hugur við göngu á tindinn. En engin ástæða er þó til að reyna ekki, sé um fjallgöngumenn að ræða sem treysta sér tæpt og eru vanir útivist án þess að hafa klifið svipaðar leiðir áður.
Kirkjufellið er líka eitt þeirra fjalla sem er breytilegt að sjá eftir því hvaðan horft er á það. Sjá menn fjallið úr norðri eða suðri líkist það uppmjóu tjaldi – sumir líkja því við vasaútgáfu af Matterhorn í svissnesku ölpunum. Úr vestri og austri er fjallið kistulaga og mjög greinilega gert úr stafla af hraunlögum. Þaðan er líka augljóst að fjallið er rofleif ísaldarjökla sem fallið hafa ofan frá ísaskilum á Snæfellsnesi til sjávar – tveir jöklar hafa endurtekið malað sér leið hvor sínum megin við fjallið og tálgað það í kamb – hraunlögin eru fáeinna miljóna ára gömul. Jöklarnir hafa ekki verið þykkir og náð fram úr Helgrindunum. Í neðri hluta fjallsins eru setlög með yfirbragði sjávarsets enda er fjallið að minnsta kosti að hluta frá því snemma á ísöld.
Nafn fjallsins hlýtur að koma af lögun þess. Þótt það sé ekki mjög hátt, rís það tignarlega við himin. Danski sjó- og verslunarmenn fyrri alda kölluðu fjallið Sukkertoppen (Sykurtind, eiginlega marengs-toppinn eftir vinsælli köku úr dönskum bakaríum).
Rétt norðvestan við Kirkjufellsá liggur dálítill vegarspotti í átt að Kirkjufelli. Frá enda hans er stefnt beint á suðvesturhrygg fjallsins. Fyrst eru lágar grónar brekkur en fljótlega byrja göngumenn á að þræða sig í gegnum klettabeltin. Auðveldast er að halda sig sem mest vestan í hryggnum, brölta upp smáklaufir í klettunum og hliðra sér til eftir sjónhendingu eftir misbröttum grasfláum. Vitað er til að menn hafi notað yddan tréflein, langt sporjárn eða litla ísöxi til að auka sér öryggi á leiðinni. Ef grasið er blautt er fallhættan meiri en ella. Einnig þarf að gæta að lausum steinum, halda hóp og nota hjálm. Freistist einhver til að nota belti og línu verður að nota hefðbundnar tryggingar klettaklifrara en klífa alls ekki í línunni þannig að menn séu bundnir saman án nokkurra fastra trygginga. Efst eru allháir klettar og þar hefur verið komið fyrir keðju. Uppi á fjallinu er að sjálfsögðu fallegt útsýni, til dæmis með norðurströnd Snæfellsness og út yfir Breiðafjörð með öllum sínum mýgrút eyja. Ofan skal fara sem mest sömu leið og þykir mörgum það vandasamara en að fara upp.