Skjaldbreiður þykir ekki aðeins fallegt fjall, séð t.d. af Þingvöllum, heldur hefur Jónas þjóðskáld og náttúrufræðingur Hallgrímsson mært það í þekktu ljóði. Nú á dögum þykir ekki tiltökumál að aka á fjallið á snjósleða eða breyttum jeppa á veturna (enda gaman og sjálfsagt meðan snjór er nógur) en sem betur fer eru göngumenn einir á fjallinu á sumrin. Lengst af var löng leið á fjallið af vegi en eftir að línuvegur (F338) var lagður milli Kaldadalsvegar og Biskupstungna hefur göngum á fjallið heldur fjölgað.
Lögun Skjaldbreiðar er einkennandi fyrir þá tegnund eldstöðva sem við köllum dyngjur. Þær verða til í einu mjög löngu hraungosi, hver dyngja (öfugt við eldborgir). Dæmi má nefna: Trölladyngja, Kollóttadyngja og Heiðin há. Systur dyngnanna erlendis eru t.d. á Hawaii-eyjum en þær suðrænu eru í raun geysistórar megineldstöðvar og samsettar úr þykkum hraunum síendurtekinna dyngju- og sprungugosa. Miðhluti Surtseyjargossins var dyngjugos (flæðigos úr megingíg). Uppi á Skjaldbreið er stór gígur, jafnan með snjó eða vatni. Hraun Skjaldbreiðar rann um allt svæðið sem nú er undir fleti Þingvallavatns fyrir um 10 þúsund árum. Ofan á það, nokkru sunnan dyngjunnar, lagðist svo hraun sem er aðeins yngra og komið úr gossprungum norðaustan við Hrafnabjörg. Til þess telst hraunið sem nefnt er Þingvallahraun, efsta hraunið á botni Þingvallavatns og t.d. hraunið sem sést í þversniði í Almannagjá.
Leiðin á háfjallið er einföld og greið. Oftast er farið frá stað þar sem línuvegurinn liggur sem hæst í Skjaldbreið og gíghólinn Hrauk (605 m). Þangað liggur stutt ökuslóð í suður frá línuveginum (til hægri ef komið er af Kaldadalsvegi). Stefnan er tekin beint á koll dyngjunnar. Mest er um sandborið hraun og misháa hraunrima undir fæti. Gígriminn er auðkleifur. Af fjallinu sést vítt um Suðurland og Langjökul og minni bræður hans hið næsta honum, sem og uppsveitir Borgarfjarðar. Hlöðufell blasir við og er síst tilkomuminna en Herðubreið.